70% ökumanna nota símann undir stýri
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar frá árinu 2018 sem unnin var fyrir Sjóvá er sláandi algengt að íslenskir ökumenn noti símann við akstur. Sjö af hverjum tíu ökumönnum nota símann undir stýri en þegar aldurshópurinn 18-44 ára er skoðaður sérstaklega fer hlutfallið upp í níu af hverjum tíu. Í þeim aldurshópi senda eða lesa tæplega tveir þriðju ökumanna skilaboð á meðan þeir keyra og þrír af hverjum fjórum líta á símann og lesa tilkynningar.
Á sama tíma gera ökumennirnir sér þó vel grein fyrir hættunum sem fylgja þessari hegðun. Þátttakendur svöruðu því nær allir að símanotkun undir stýri væri hættuleg og hefði mikil áhrif á aksturshæfni þeirra. Töldu þeir hættulegast að senda eða lesa skilaboð og að skoða samfélagsmiðla í símanum.
Þessar niðurstöður eru sláandi og er ljóst að við þurfum að taka okkur á og leggja símanum í eitt skipti fyrir öll á meðan við keyrum. Þannig getum við með einföldum hætti aukið öryggi okkar og annarra í umferðinni svo um munar.
Er síminn í alvörunni svona mikilvægur?
Símanotkun undir stýri stóreykur hættu á umferðarslysum
Þegar þú notar síma undir stýri er margfalt líklegra að þú lendir í slysi. Þú lítur til dæmis af veginum í fimm sekúndur að meðaltali ef þú skrifar skilaboð undir stýri. Það þýðir að á 70 kílómetra hraða keyrir þú nær 100 metra blindandi. Á 90 kílómetra hraða keyrir þú 125 metra án þess að hafa augun á veginum, sem er lengra en heill fótboltavöllur.
Þegar þú notar síma undir stýri:
- ertu lengur að bremsa
- lengist viðbragðstími þinn um allt að helming
- lítur þú af veginum að meðaltali í fimm sekúndur
- tuttugufaldast líkurnar á því að þú lendir í umferðarslysi