Sjóvá tók í vikunni á móti viðurkenningu fyrir að vera efst tryggingafélaga í Sjálfbærniásnum 2024.
Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu fyrirtækja og stofnana í sjálfbærnimálum. Mælikvarðinn mælir þá fjóra þætti sem The World Economic Forum telja að muni leiða heiminn á sjálfbærari stað; plánetuna, hagsæld, fólk og stjórnarhætti.
„Við erum afar þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Okkur þykir sérstaklega ánægjulegt að hún byggi á svörum neytenda, því það er einmitt í samvinnu við þá og fjölbreyttan hóp samstarfsaðila okkar sem við getum náð bestum árangri, svo sem í að koma í veg fyrir tjón og að lágmarka umhverfisspor þeirra. Við höfum einnig í gegnum tíðina lagt ríka áherslu á að auka stöðugt ánægju viðskiptavina okkar og starfsfólks, og lítum á það sem mikilvægan þátt af sjálfbærnivinnu okkar. Við hlökkum því til að halda áfram að finna fleiri tækifæri til að hafa áhrif á sviði sjálfbærni, í virku samtali og samvinnu við viðskiptavini okkar og birgja,“ segir Sigríður Vala Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni.
Það eru Prósent, LANGBRÓK Consulting og Stjórnvísi sem standa að Sjálfbærniásnum.