Það eru ýmsar ólíkar leiðir sem fólk getur farið til að ávaxta fé sitt. Hægt er að kaupa eignir í þeirri von um að þær hækki í verði, leggja fé inn á bankareikning með vöxtum eða kaupa verðbréf.
Verðbréfum má í einföldu máli skipta í tvennt; verðbréf með föstum tekjum (skuldabréf) og verðbréf með breytilegum tekjum (hlutabréf). Skuldabréf skila eigendum sínum fyrirfram ákveðinni ávöxtun. Hlutabréf skila eigendum sínum hins vegar tekjum sem eru háðar rekstri viðkomandi fyrirtækis og því er alltaf ákveðin áhætta að fjárfesta í félagi með þeim hætti. Á meðan hluthafi eignast hlut í mögulegum hagnaði félagsins getur hann líka tapað allri fjárfestingu sinni ef reksturinn gengur illa.
Hlutafé er það fjármagn sem er notað til að byggja upp eða viðhalda rekstri fyrirtækis og er nauðsynlegt til að hægt sé að stofna og reka það. Féð er framlag eigenda þess, hluthafanna, til félagsins. Komi til þess að fyrirtæki geti ekki staðið við skuldbindingar sínar er hlutafé afgangskrafa, þ.e. er það fé sem er fyrst til þess að tapast. Þeir sem eiga hlutaféð gera alla jafna kröfu um að fá eitthvað í staðinn fyrir fjármagnið sem þeir leggja félaginu. Féð þeirra getur ávaxtast annars vegar með breytingum á verði/gengi hlutabréfanna og hins vegar með arðgreiðslum og/eða endurkaupum á hlutafé.
Um arðgreiðslur gilda skýr lög. Eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki, eins og t.d. tryggingafélög, mega aðeins greiða út arð samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs og ef það dregur ekki úr rekstrarhæfi félagsins. Þá má arðgreiðsla heldur ekki hafa áhrif á getu félagsins til að mæta áföllum í rekstri. Gögnum sem staðfesta að þessi skilyrði séu uppfellt er reglulega skilað inn til Fjármálaeftirlitsins.